Færsluflokkur: Umhverfismál

Um hvað hefði dr. Kristján Eldjárn bloggað í dag?

KE1962Vinland           Í tilefni afmælis Kristjáns Eldjárn (6. desember) hélt Félag fornleifafræðinga skemmtilega ráðstefnu á þjóðminjasafninu s.l. mánudag. Þar sat ég og velti því fyrir mér hvað Kristján Eldjárn myndi hafa verið að fást við á 105 ára afmælinu sínu.

Svarið lét ekki á sér standa: hann hefði jú eflaust setið við og bloggað.

  Þótt margt hafi verið rætt og ritað um íslenskar fornleifar ber KE enn höfuð og herðar yfir aðra menn í þeim efnum. Strax eftir fyrsta leiðangurinn sem hann fór í 1937 skrifaði hann lipra grein í Alþýðublaðið um þá ævintýraferð um norrænar eyðibyggðir á Grænlandi. Var þetta upphafið að nær hálfrar aldar ritferli hans og brá hann sér ýmis gervi, skrifaði dálka og pistla og bækur. Prentað orð dugði honum ekki. Í sumarlok 1939 barst rödd hans á öldum ljósvakans inn á hvert heimili. Innan um fréttir af yfirvofandi stríðsógn í Evrópu mátti heyra stillilega rödd fræðaþularins fjalla um merkar fornleifarnnsóknir á Stöng í Þjórsárdal. Þrjátíu árum síðar hóf göngu sína þáttaröðin Munir og minjar í ríkissjónvarpinu: ein tökuvél, eitt ljós, ein taka, með öllu óklippt. Enda þurfti ekki annað, þáttagerðarmaðurinn fyllti út í svarthvítan skjáinn, handlék forna gripi fimlega, lýsti gerð þeirra og menningarsögulegu gildi og færði þannig söfn landsins heim í stofu.

  Kristján var vísindamaður og embættismaður, en hann var fyrst og síðast skáld og „essayisti“ af Guðs náð. Liggja sporin víða: Hann skrifaði jöfnum höndum í dagblöð og tímarit, og þá hvorki meira né minna en öll dagblöðin og líklega hefur hann birt greinar í fleiri tímaritum hér á landi en aðrir menn. Flestar birtust þær í Árbók Fornleifafélagsins og í öðrum fræðiritum, en einnig héraðsritum og málgagni allra handa hópa, s.s. Skinfaxa, Fálkanum, Riti Heimilisiðnaðarfélagsins, Andvara, Sólskini, Eiðfaxa, Sjómannablaðinu Víkingi, Skátablaðinu, Varðbergi, Líf og list, Kirkjuritinu. Mér skilst að þeir sem reynt hafa að finna heildartöluna gefist flestir upp þegar talin hafa verið rúmlega 600 ritverk.

  Það er ljóst að maðurinn var sískrifandi. Heyrst hefur að tikkið í ritvél hans hafi iðulega verið hluti af kvöldstemningunni á heimilinu.

  Í dag væri hann semsagt að blogga. En um hvað?

 Yfirskriftin á ráðstefnu fornleifafræðinganna var sérlega viðeigandi á okkar dögum: „Hamfarir“.  Þar voru m.a. haldin fróðleg erindi um vitnisburð fornleifafræði og jarðfræði um hamfarir fyrr á öldum, faraldra og áhrif eldgosa á afdrif minja á okkar tímum. Ný kynslóð vísindafólks heiðraði minningu Kristjáns á afmælinu með því að segja frá afrakstri nýrra rannsókna og miðla frásögninni með stafrænu streymi, frá safninu til heimsbyggðarinnar.

  Og hér liggur svarið: hann væri að blogga um hamfarir og þær nýju hættur sem steðja að íslenskum menningararfi vegna loftslagsbreytinga og hækkunar sjávarborðs m.m. Og sjálfsagt farinn að vlogga um þau sömu mál, og podda…

 

 

 

---

Myndefni: KE á Nýfundnalandi 1962 (ljósmyndari: Gísli Gestsson, Þjóðminjasafn Ísl.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband